Frá Sendiráðinu í Norda - Nýtt nafn, sama vegferðin

author

Telma Hrönn Númadóttir

Verkefnastjóri
16. janúar 2023
3 mín lestur

Frá því ég hóf störf hjá Sendiráðinu hefur sú umræða endurtekið vaknað hvort rétt væri að skipta um nafn, finna gott nafn sem endurspeglar betur hver við erum sem fyrirtæki og þau gildi sem knýja okkur áfram.

Sendiráðið fannst okkur ekki lengur tákna þá átt sem við erum að fara í og okkur fannst að ný sjálfsmynd myndi passa betur við markmið okkar og verkefni. Þó að Sendiráðið hafi upphaflega verið ætlað að tákna það breiða og fjölbreytta þjónustusvið sem við stöndum fyrir, hefur það með tímanum fengið á sig ímynd auglýsingagerðar og markaðsetningar í stað forritunar- og vefsíðuþróunar, UX hönnunar og annarrar þjónustu sem við bjóðum upp á. Svo ekki sé minnst á endurtekin símtöl varðandi týnd vegabréf eða önnur vandamál sem við þó höfum gert okkar besta að leysa, svona eins langt og geta okkar til þess nær 🙂





Þegar kom að því að finna nýtt nafn, vildum við finna nafn sem væri einstakt og eftirminnilegt og ólíklegt til að skapa misskilning um störf okkar og þekkingu. Norda spratt upp úr frjóum huga framkvæmdastjóra okkar og hefur fest sig í sessi hér innanhúss á skömmum tíma. Það er ferskt og sérstakt nafn sem við teljum að muni hjálpa okkur að skera okkur úr og aðgreina okkur frá öðrum. Merkingin, eins og nafnið gefur til kynna, er vísun á Norðurslóðir. Falleg tenging við uppruna okkar og hógvært stolt má greina þarna líka en fyrst og fremst finnst okkur nafnið fallegt og standa vel fyrir þá nýsköpun og framþróun sem við viljum vera þekkt fyrir.

Við horfum í auknum mæli á erlenda markaði og finnst mikilvægt að hafa ferskt, sérstakt og ekki síst alþjóðlegt nafn sem hjálpar okkur að skera okkur úr og aðgreina frá öðrum. Sendiráðið á það til að vera örlítill tungubrjótur meðal erlendra hagsmunaaðila og ég get staðfest það að enska þýðingin er ekki hjálpleg þegar kemur að auknum skilning á okkar störfum.

Að lokum vildum við nafn sem væri í samræmi við þær vörur og þjónustu sem við bjóðum upp á. Sendiráðið hafði ekki endilega sterka tengingu við það sem við gerum, en Norda tjáir með skýrari hætti nýstárlegt og framsækið eðli fyrirtækisins okkar.





Við skiljum að breytingar geta verið erfiðar og við viljum fullvissa viðskiptavini okkar og samstarfsaðila um að þetta nýja vörumerki muni ekki hafa áhrif á gæði eða áreiðanleika vöru okkar og þjónustu. Nafnið er kannski nýtt en kennitalan, gildin og fólkið er það sama.

Áherslurnar eru líka að mestu óbreyttar, við hugsum reyndar aðeins stærra en fókusinn verður áfram á að uppfylla sömu gæði og þjónustustig og við höfum gert hingað til.

Þó svo að það sé skrítið að kveðja gamla nafnið erum við spennt fyrir þessum nýja kafla og erum þess fullviss að Norda muni þjóna viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum betur þegar við höldum áfram að vaxa og þróast.

Hönnun

Norda