Tilkynning um slys

Tilkynning um slys vann Norda í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands sem hluta af þeirra stafrænu vegferð. Markmið þessa verkefnis var að einfalda notendum tilkynningaferlið sem og að passa upp á að allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram til að tilkynningin standist skoðun.

Ítarleg greiningarvinna

Aðstæður og tegundir slysa geta verið flóknar og margbreytilegar. Flokkar, undirflokkar og umsýsla gagna eykur enn fremur flækjustigið. Mikil og góð greiningarvinna fór fram með Sjúkratryggingum Íslands þar sem farið var í gegnum allar tegundir og flokkanir. Sú greiningarvinna skilaði sér í einföldu og skýru flæði fyrir notendur sem passar jafnframt upp á réttmæti gagna.

Skilvirknin í forgrunni

Ýmis konar viðbótargögn þurfa að fylgja með þegar slys eru tilkynnt. Þessi gögn eru mismörg eftir tegundum slysa en öll þurfa þau að skila sér til stofnunarinnar. Sem dæmi um gögn má nefna læknisvottorð, áverkavottorð og samtal við bráðamóttöku. Til þess að gera tilkynnanda auðveldara fyrir og flýta ferlinu er ekki gerð krafa um að skila öllum fylgiskjölum strax, heldur er gefinn kostur á að skila inn tilkynningunni fyrst og bæta svo viðeigandi fylgiskjölum við síðar.

Aðkoma þriðja aðila

Það er ekki eingöngu sá slasaði sem getur skilað inn tilkynningu um slys í gegnum kerfið, heldur einnig aðstandandi eða vinnuveitandi, forsvarsmaður íþróttafélags eða björgunarsveitar, skólastjóri eða annar viðkomandi. Þegar þriðji aðili á í hlut þarf bæði sá slasaði eða einhver í forsvari fyrir hann, sem og þriðji aðili, að samþykkja tilkynninguna til að hún sé gild. Á þessum tímapunkti kemur inn svokölluð yfirferðarstaða umsóknar. Með yfirferðarstöðu er átt við að þegar sá slasaði eða forsvarsmaður hefur tilkynnt slysið, þá fær þriðji aðili tilkynningu og getur skráð sig inn í umsóknarkerfið, skoðað tilkynninguna og samþykkt hana eða gert við hana athugasemd. Það sama á við þegar þriðji aðili tilkynnir slys fyrir hönd hins slasaða, þá þarf hinn slasaði að fara yfir tilkynninguna og samþykkja hana eða hafna.

Í vegferð af þessari stærðargráðu er lykilatriði að stór og smá verkefni sem verða til séu unnin af vel samsettum teymum sem hafa breiða sérfræðiþekkingu og getu til þess að greina, brjóta niður og smíða ferli sem standa undir ítrustu gæðakröfum.

Gunnar Ingi Reykjalín Sveinsson - vörustjóri

Gunnar Ingi Reykjalín Sveinsson

vörustjóri